Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga

Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga (KVH) er stéttarfélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga. Félagið sér um að gera kjarasamninga fyrir hönd félagsmanna, bæði á almennum og opinberum vinnumarkaði.  Það vinnur að bættum kjörum félagsmanna, gætir réttinda þeirra og er óháð starfsvettvangi, vinnuveitanda eða ráðningarformi.

Alls greiddu langt á annað þúsund félagsmenn félagsgjöld til KVH á árinu 2015.  Tæplega helmingur starfar á almennum vinnumarkaði en um helmingur hjá ríkisstofnunum.

KVH hefur það að markmiði að félagsmenn þess njóti bestu mögulegrar þjónustu og hagsmunagæslu á hverjum tíma. KVH er aðili að Bandalagi háskólamanna.

Aðsetur KVH og BHM er að Borgartúni 6, Reykjavík.

Efst á baugi

BHM fræðslan – námskeiði bætt við

18/08/2016

Mikill áhugi er á námskeiðum sem BHM stendur að nú á haustönn 2016. Uppbókað er á þrjú námskeið og komust því miður færri að en vildu.

Ákveðið hefur verið að endurtaka eitt þessara námskeiða síðar á önninni. Það er námskeiðið Jákvæðni og vellíðan í lífi og starfi sem Ragnhildur Vigfúsdóttir, markþjálfi hjá Zenter ehf., hefur umsjón með. Það verður haldið öðru sinni dagana 9. og 16. nóvember nk., milli kl. 9:00 og 12:00 (báða dagana).

Opnað verður fyrir skráningu hér á námskeiðið kl. 10:00 í fyrramálið, 19. ágúst. Sem endranær gildir að fyrst koma, fyrst fá.

BHM-fræðslan

17/08/2016

Hér má nálgast fræðsludagskrá BHM fyrir komandi haustönn.

Dagskráin/skráning er einnig aðgengileg á heimasíðu BHM: http://www.bhm.is/um-bhm/fraedsla/dagskrafraedslu/

Vinsamlegast athugið að búið er að opna fyrir skráningu á einstök námskeið. Fjöldi þátttakenda er yfirleitt takmarkaður og gildir því reglan fyrstur kemur fyrstur fær.

Skrifstofa KVH lokuð 11. og 12. júlí

08/07/2016

Vegna sumarleyfa verður skrifstofa KVH lokuð mánudaginn 11. júlí og þriðjudaginn 12. júlí.  Erindum sem berast í netpósti til KVH verður svarað að þeim tíma liðnum.

Stofnanasamningar og staðlað form þeirra

15/06/2016

Í samræmi við ákvæði nýrrar greinar í kjarasamningi KVH og ríkisins, hafa aðilar gengið sameiginlega frá „stöðluðu formi stofnanasamnings“, sem hægt er að vísa í og nota  í þeim tilvikum sem einn eða mjög fáir félagsmenn KVH starfa á stofnun. Tilgangurinn er einkum sá að auðvelda stofnunum og félagsmönnum KVH að semja um ráðningarkjör með vísan í fyrirmynd eða staðlað form stofnanasamnings.

Þetta form eða fyrirmynd breytir þó ekki því að stéttarfélagið KVH eða ríkisstofnun geta engu að síður farið fram á að gerður verði formlegur stofnanasamningur við viðkomandi stofnun, þar sem mjög fáir starfsmenn starfa, ef ekki hefur náðst viðunandi niðurstaða um launakjör.

Aðilar hafa einnig gengið sameiginlega frá leiðbeiningum er skýra nánar hvernig nota skuli formið.  Að auki fylgir með svonefnt launablað, sem nota má til staðfestingar launaröðunar og samsetningar heildarlauna, og þegar launabreytingar verða, svo auðveldara reynist fyrir báða aðila að staðfesta launaþróun viðkomandi starfsmanns.

Fyrrgreind gögn um staðlað form, leiðbeiningar og launablað má finna á vefsíðu KVH, undir Kaup og kjör; Stofnanasamningar.

KVH er jafnt og þétt að vinna við endurskoðun stofnanasamninga og ávallt eru viðræður í gangi við nokkra aðila, enda margir samningar komnir til ára sinna.  Að loknum sumarleyfum má búast við að KVH hefji viðræður við fleiri stofnanir, líklega fyrst þær fjölmennustu, um endurnýjun stofnanasamninga, en stefnt er að því að ljúka endurnýjun samninga svo fljótt sem auðið er.

eldri_frettir_button